Heitir pottar

Fyrir skemmtilegar stundir og aukna vellíðan.

Hreinsefni

Viðhald

Heitir pottar fyrir þig

Hjá Tengi eru heitir pottar í vönduðu úrvali ásamt aukahlutum, hreinsiefnum og ýmsu sem þarf til að koma upp heitum potti. Hér á þessari síðu finnur þú það sem þú þarft að vita um heita potta.

Hugaðu að heilsunni

Hver gæða stund skiptir máli. Slökun í notalegum nuddpotti veitir einstaka vellíðan og hjálpar til við að ná slökkun og mýkt í stífa vöðva. Það er fátt notalegra en að skella sér í heita pottinn sem alltaf er klár með hárréttu hitastigi fyrir þig.

Vandaðir rafmagnspottar frá Sundance Spa

Heitir pottar til sölu hjá Tengi ásamt aukabúnaði.

Það sem þarf að hafa í huga
við val á heitum potti

Það er mjög mikilvægt að vanda ákvörðunartöku við val á heitum potti. Það er að mörgu að hyggja eins og hvar á potturinn að vera, hvernig á að tengja hann og hvað kostar að reka heita pottinn. Hér á þessari síðu má finna allt það helsta sem þarf að hafa í huga við val á heitum potti.

Rafmagnspottur eða hitaveituskel?

Hvort er betra rafmagnspottur eða hitaveituskel. Þetta eru nokkuð ólíkar leiðir hvor með sína kosti og galla.

Rafmagnspottur með nuddi heitur pottur heitir pottar
Hitaveitupottur heitur pottur skel

Rafmagnspottar koma tilbúnir

Þetta er það sem þú þarft að koma fyrir rafmagnspotti. Nægjanlegt rafmagn og leggja raflögn frá rafmagnstöflu og að pottinum, að undirstöður séu nægjanlega traustar þar sem potturinn á að vera og þú hafir kalt vatn.

Ef þetta er til staðar er mjög fljótlegt að koma pottinum fyrir. Rafmagnspottar eru margir nokkuð þungir frá 350 kg. upp í 500 kg. Í mörgum tilfellum eru rafmagnspottar fluttir á vörubíl með krana og hífðir á sinn stað. Það er leið sem við mælum með þar sem pottarnir eru nokkuð þungir og þó fólk sé hraust þá hafa komið fyrir óhöpp þar sem fólk hefur misst pottinn eða rekið hann utan í með þeim afleiðingum að hann skemmist.

Öruggur flutningur og aðstoð rafvirkjameistara við tengingar á rafmagni er það sem við mælum eindregið með.

Uppsetning á hitaveituskel

Að setja upp hitaveituskel er flóknara en uppsetning á rafmagnspotti en rekstrarkostnaður getur verið lægri en það fer allt eftir notkun. Leggja þarf vatnslagnir og mögulega rafmagnslagnir fyrir stýringar að hitaveituskelinni. Þannig að þú þarft að fá bæði pípulagningameistara og rafvirkjameistara til að leggja og tengja fyrir hitaveituskel. Í flestum tilfellum þarf einnig að byggja upp grind í kringum pottinn og klæða hana af.

Hér gildir það sama og um rafmagnspotta, þú þarft að ganga úr skugga um að undirstöður séu nægjanlega sterkar til að bera pottinn. Lang flestir hleypa vatninu úr í hvert skipti sem búið er að nota pott fyrir hitaveituvatn, en nokkrir kjósa að hafa stöðugt streymi og hitastýringu á pottinum og þar af leiðandi hleypa vatninu sjaldnar úr.

Hitaveituskeljar eru því tengdar niðurfall. Þegar hitaveituskel er komið fyrir þarf að nægjanlegan vatnshalla niðurfallinu frá pottinum og þar sem hann tengist niðurfallslögninni við húsið. Þú gætir líka viljað setja hitaþráð með niðurfallslögninni eða gera aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að það frjósi í lögnunum sem því miður kemur allt of oft fyrir.

Það er því margt sem týnist til á kostnaðarhliðinni þegar hitaveituskel er valinn, hér eru helstu atriðin, skelin, blöndunartæki, stýringar fyrir inn og útstreymi, lagnaefni, vinna við lagnir, efni til að byggja í kringum pottinn og smíðavinna.

„Aðalatriðið er að kynna sér báðar leiðir vel og setja svo upp heitan pott og byrja að njóta“

Hvað kostar að reka rafmagnspott

Orkunotkun á rafmagnspottum getur verið misjöfn og stærri rafmagnspottar taka eðlilega meiri örku en þeir minni. Við getum ekki sagt til um hvað orkukostnaðurinn við þinn rafmagnspott verður hár en algengt er að það kosti um 2.500 – 5.000 krónur á mánuði að reka rafmagnspott. Í rafmagnspottum eru ýmsir aukahlutir s.s. ljós, kælar og hljómkerfi sem gera áætlun orkunotkunar flóknari.

Hvað kostar að reka heitan pott með hitaveituvatni

Ein af algengari spurningum sem fólk veltir fyrir sér við kaup á heitum potti er „hvað kostar að fylla heitan pott“? Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu hjá Veitum kostar að fylla meðal hitaveituskel um 120 kr. í hvert skipti. Ef um sírennsli er að ræða þá gefa veitur upp áætlaðan kostnað um 1.200 kr. á mánuði.

Viðhald og umhirða heitra potta

Hvort sem þú velur þér hitaveituskel eða rafmagnspott þá er nauðsynlegt að hugsa vel um pottinn og halda honum vil til að tryggja góða endingu og ánægju af notkun hans. Það sem verður alltaf að passa. ER AÐ ÞAÐ MÁ ALDREI FRJÓSA VATN Í HEITUM POTTI!

Kosturinn við rafmagnspotta er að fólk er yfirleitt alltaf með þá í gangi með ákveðið hitastig á vatninu sem kemur í veg fyrir að það frjósi í þeim. Hitaveituskeljar eru hins vegar yfirleitt tæmdar eftir notkun í hvert skipti. Hættan er hins vegar sú að það sitji vatn eftir í lögnum og ef það frís t.d. í niðurfalli þá getur orðið mikið og leiðinlegt tjón. Lagnirnar eiga á hættu að springa og næst þegar vatn er látið renna um þær fer allt að leka.

Nauðsynlegt er að tæma allt vatn alveg úr lögnum á hitaveituskeljum ef þú átt von á frosti eða vera með búnað sem tryggir að ekki frjósi í lögnum.

Viðhald rafmagnspotta

Að reka og viðhalda rafmagnspott er frekar einfallt en þarf að vinnast reglulega. Rafmagnspottur er með sírennsli og hreinsibúnað sem þarf að hugsa um. Gæta verður að því að síur séu hreinsaðar með reglulegu millibili og skipt um sérstakar perur sem gegnum lýsa vatnið til að drepa bakteríur.

Hreinsa síur á 4 til 5 mánaða fresti

Síur í hreinsibúnaði rafmagnspotta þarf yfirleitt að hreinsa á 4 til 5 mánaða fresti. Margir velja þann kost að vera með tvær síur þannig að það sé alltaf ein tilbúin þegar þarf að halda. Það er mjög algengt að eigendur rafmagnspotta vilji nota pottinn daglega þar sem hann er alltaf tilbúinn og því getur tímasetningin þegar komið er því að hreinsa síu fyrir rafmagnspott verið óhentug. En kostnaður við auka síu er ekki hár.

ALLTAF AÐ FARA Í STURTU ÁÐUR EN FARIÐ ER Í RAFMAGNSPOTT.

Það er algjört lykilatriði að allir fari í sturtu áður en farið er í rafmagnspottinn. Húðfita, óhreinindi, snyrtivörur og hárvörur sem við berum með okkur geta aukið álagið á hreinsibúnaði 200 fallt og þar með stytt endingartíma og aukið rekstrarkostnað.

Hreinsa síu í rafmagnspotti skipta um síu í heitum potti Heitir pottar

Skipta um Ozone peru einu sinni á ári

Í rafmagnspottunum frá Sundance Spa er öflugur hreinsibúnaður með stöðugu gegnumstreymi sem er gegnum lýst með UVC geyslum sem drepa óæskilegar bakteríur í vatningu. Algengur endingartími á Ozone hreinsi peru í Sundance Spa heitum pottum er c.a. eitt ár.

Nýjar silfurkúlusíur á 3 – 4 mánaða fresti

Við mælum með að fólk noti síur með silfurkúlum sem koma í veg fyrir myndun baktería, myglu og þörunga í vatninu. Aðferð sem notuð hefur verið í árþúsundir og er enn við lýði. Ein af ástæðum þess að forfeður okkar drukku úr drykkjarílátum úr silfri er talin vera m.a. máttur silfurs til að drepa bakteríur.

Að setja klór í rafmagnspott

Við mælum með því að setja eina skeið af klórdufti út í vatnið í rafmagnspottinum þegar notkun á honum er lokið þann daginn. Á meðan þú ert ekki í pottinum þá vinnur klórinn á mögulegum óhreinindum í lögnum og skelinni sjálfri. Sérstakt hreinsiprógram getur verið tímastillt í Sundance Spa pottunum eða sett handvirkt af stað til að keyra vatn af krafti í gegnum allar leiðslur og um pottin til að tryggja hámarks hreinlæti. Klórinn vinnur því á meðan þú ert ekki í pottinum og lygtin gufar upp þannig flestir finna aldrei neina klórlygt.

Að yfirklóra rafmagnspott

Einu sinni til tvisvar á ári mælum við með að þú „Yfirklórir“ rafmagnspottinn. Þetta er gert til að ná extra góðri hreinsun á öllum leiðslum sem vatn fer um og skelinni sjálfri. Yfirklórun er framkvæmd þannig að extra mikið af klórdufti (hafðu samband við ráðgjafa okkar um magn fyrir þinn rafmagnspott) er sett út í vatnið í pottinum og öll kerfi sett á fullt og látin ganga í dálítinn tíma. Þá er komið að því að skola pottinn sem er gert þannig að hann er fylltur með fersku vatni og öll kerfi sett aftur á fullt og látin ganga í dálítinn tíma og potturinn tæmdur, skolun er svo endurtekin einu sinni enn. Að báðum skolunum loknum er potturinn fylltur aftur og nú er hann látinn hita vatnið upp í hitastigið sem þú vilt hafa hann í.

Hvað tekur langan tíma að hita Sundance rafmagnspott

Að hita rafmagnspott fer að sjálfsögðu eftir stærð en á meðalstórum potti að má reikna með því að það taki allt að 20 tíma að hita kalt vatn upp í óska hitastigið sem er yfirleitt í kringum 38°C.

Hvað með að setja hitaveituvatn í rafmagnspott?

EKKI SETJA HITAVEITUVATN Í RAFMAGNSPOTTA. Við mælum eindregið gegn því að fólk setji hitaveituvatn út í rafmagnspotta. Ástæðan er úrfelling úr hitaveituvatninu sem getur sest innan á skelina og inn í lagnir. Ef þú ert hins vegar með forhitara á neysluvatn sem leitt er um heitavatnslagnir hússins þá horfir málið öðru vísi við. Þá er þér óhætt að láta heitavatnið renna í pottinn og þú munt stytta biðtíma eftir að potturinn nái kjörhitastigi verulega.

Hvernig á ég að þrífa nuddstúta á heitum potti

Svarið er einfallt, þú þarft ekki að þrífa nuddstúta á rafmagnspotti frá Sundance Spa. Ef þú fylgir öllum leiðbeiningum um meðferð og hreinsun á rafmagnspottinum. Þetta er hins vegar mjög algeng spurning og þá fylgir oft slæm dæmisaga um nuddbaðkör.

Notkun á nuddbaðkörum er allt önnur en á rafmagnspottum. Þegar farið er í nuddbaðkar þá hefur fólk sjaldnast farið í sturtu á undan og því jafnvel með óhreinindi á sér. Þó fólk hafi farið í sturtu á undan og þrifið sig vel. Þá er alltaf einhver húðfita og óhreinindi sem fara út í vatnið. Vatnið fer í gegnum leiðslur og nuddstúta, og þegar látið er renna úr baðkarinu þá leggjast óhreinindin inn í lagnirnar og þorna þar. Næst þegar farið er í nuddbaðkarið og nuddið sett í gang þá vilja óhreinindin losna og berast út í baðvatnið og grugga það upp. ÞETTA Á EKKI VIÐ UM RAFMAGNSPOTTA! Þar sem vatnið er stöðugt í rafmagnspottinum. En hægt er að koma í veg fyrir óhreinindi í nuddbaðkörum með réttu hreinsiefnunum.

Sýrustig á vatni í heitum potti

Gæði á vatni í heitum potti skiptir miklu máli fyrir húð og heilsu okkar. Það er mikilvægt að mæla reglulega sýrustig á vatni í rafmagnspottum. Það er mjög einfallt að framkvæma próf á sýrustigi í heitum pottum. Þú kaupir mælistrimla sem þú dýfir ofan í vatnið og liturinn sem kemur fram á þeim segir til um sýrustigið. Þú getur svo fengið bætiefni út í vatnið hjá okkur til að stilla sýrustigið af.

Hvernig á að tengja rafmagnspott við rafmagn

Leggja þarf sérstaka raflögn frá rafmagnspottinum inn að rafmagnstöflu. Raflögnin er sett á sérstakt öryggi ekki minna en 25Amp en helst 32Amp. Fáðu löggiltan rafvirkja til að annast tengingu á rafmagnspottinum. Sundance Spa rafmagnspottar eru með stýringu sem nýtir rafmagnið eins vel og mögulegt er. Ef Sundance Spa rafmagnspottur fær lágmarksrafmagn, þá getur hann ekki keyrt bæði hitara og nudddælur samtímis. Það er því nauðsynlegt að fá rafvirkjameistara sem hefur kynnst sér tengingar á rafmagnspottum til að sjá um verkið. Með þriggja fasa tengingu og 5 víra kappli með nægum sverleika þá færðu nægjan straum til að keyra bæði hitara, báðar nudddælurnar og sírennslisdælunu allar á sama tíma.

EKKI TENGJA RAFMAGNSPOTTINN MEÐ FRAMLENGINGARSNÚRU EÐA FJÖLTENGI. Of mikið álag á raflagnir getur leitt til eldsvoða. Einnig getur búnaður í rafmagnspottinum bilað eða skemmst af völdum slæmra gæða á rafmagni. Á nokkrum stöðum og þá iðulega í sumarhúsabyggðum er of lítill straumur til að fæða mörg sumarhús með rafmagnspotta og önnur tæki. Ef þú ert að hugsa um að setja rafmagnspott í sumarhúsið kannaðu þá fyrst vel hversu öflug raflögnin er sem þú hefur aðgang að.

Hvernig á að tæma rafmagnspott

Á heitum pottum frá Sundance Spa er affall sem þú lætur renna úr pottinum í gegnum. Affallið er þannig staðsett að það situr vatna eftir neðst í pottinum. Við affallið er tengd slanga sem þú getur leitt út í nálægt niðurfall. Til þess að tæma pottinn alveg þarf að ausa síðustu lítrana eða nota dælu. Góð leið til að tæma rafmagnspott er að vera með brunndælu eða einfalda vatnsdælu. Hægt er að fá ódýrar vatnsdælur sem er hægt að drífa áfram með borvél. En hér er ekki gott að spara um of, kynntu þér afkasta getu dælunnar og reiknaðu hversu langan tíma það tekur að tæma pottinn þinn.

Það er einnig hægt að nota venjulega slöngu og byrja að sjúga þar til það myndast sog í slöngunni og þá virkar garðslangan vel í þetta verkefni. Gættu þess að láta ekki slöngur með sandi eða öðrum óhreinindum liggja á pottabrúninni þar sem þær geta valdið rispum.

Þú leiðir slönguna í næsta niðurfall og lætur dæluna ganga. Fylgstu með sérstaklega þegar dregur að því að potturinn tæmist því flestar dælur þola illa að ganga ef þær fá ekki vatn inn á sig og geta skemmst við slíkar aðstæður.

Heimasíða Sundance Spa